Þjóðstjórn og ekkert annað!

Ég styð friðsamleg mótmæli og finnst þau raunar nauðsynleg, ríkisstjórnin þarf að vita að þjóðin sættir sig ekki við ástandið eins og það er. Ég er hins vegar ekki sammála kröfunni um "kosningar strax".

Hvernig á fólk að vita hvað það er að kjósa ef við kjósum núna, ég bara spyr?

Allir að kjósa VG...og hvað svo? Þeir virðast alveg vita hvað er rangt, en hvað með hvað er rétt? Ég heyri aldrei neitt frá þeim um HVAÐ Á AÐ GERA, bara HVAÐ Á EKKI AÐ GERA! Þar vantar of mikið upp á lausnir eða tillögur til lausna til þess að hægt sé að mynda sér vitræna skoðun og kjósa þá STRAX.

Hinir flokkarnir hafa allir lagt eitthvað af mörkum til að skapa þetta ástand og þar þurfa vissulega margir að sýna auðmýkt og BIÐJAST AFSÖKUNAR. Þar þarf umfram allt endurnýjun. Eigum við að kynnst nýju fólki (hjá þeim flokkum sem bera gæfu til að sjá ljósið og endurnýja forustu sína) á örfáum vikum eða mánuðum? Trúum við orðaskrúði eða þurfum við fólk sem lætur verkin tala?

Nei, ég vil þjóðstjórn og ekkert annað! Við erum "gjaldþrota þjóð" og við höfum einfaldlega ekki efni á að borga þingmönnum laun fyrir að "vera á móti öllu" og "rífast". Við þurfum þetta fólk, allt saman, til að leggja niður vopn í ákveðinn tíma og vinna SAMAN að þessu stærsta verkefni Íslandssögunnar, að bjarga landinu, þjóðinni, heimilunum og atvinnulífinu frá algjöru gjaldþroti.

Við höfum ekki tíma í kosningabaráttu, þar er ég sammála forsætisráðherra, þó ég sé ekki sammála honum um margt annað. Það eru of mörg verkefni framundan sem skiptir sköpum fyrir okkur öll að tími og "friður" fáist til að vinna. Þjóðin sættir sig ekki við núverandi ástand og umheimurinn ekki heldur, það er ekkert traust og enginn trúverðugleiki til staðar. Þjóðstjórn mundi breyta þessu. Ef við hefðum þjóðstjórn í, segjum ár eða svo, þá væru (vonandi) ýmis kurl komin til grafar og hægt að mynda sér skoðun til að kjósa, það finnst mér bara ekki hægt í þessari upplausn og ringulreið. Auk þess myndi almenningur þá sjá hverjir geta unnið saman sem mikilsmegandi partur af heildinni og hverjir eru "sólóistar" sem ekki er vert að eyða atkvæði á. Ég hef engan áhuga á því að kjósa yfir mig, til 4 ára, eitthvað sem gæti svo reynst verra en það sem við höfum núna.

Íslendingar eru reiðir og hræddir. Já, ég er ein af þeim. EN...hvenær hefur reiði leitt af sér rökhugsun? Ég veit ekki um aðra, en mín reynsla er að þvert á móti leiðir reiðin af sér glundroða og fljótfærnislegar ákvarðanir.

Hættum að VERA Á MÓTI bara til að vera á móti! Stígum aðeins til baka og HUGSUM...Hvað er hægt í stöðunni og hvað er líklegt til að skila okkur alvöru árangri og framþróun í þessari stöðu??

Ég vil tíma, ég vil frið, ég vil breytingar, ég vil lausnir, ÉG VIL ÞJÓÐSTJÓRN!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband