13.6.2009 | 20:48
Þessi ríkisstjórn er að éta ofan í sig eigin baráttumál með réttindi og framtíð íslensks almennings sem viðbit.
Íslendingar stefna hraðbyri að því "takmarki" ríkisstjórnarinnar að verða eins og ósjálfbjarga mús í gini ljónsins. Háttvirt ríkisstjórn Íslands virðist ætla að gera íslenskan almenning að réttindalausum sökudólgum sem eiga að sitja í (skulda)fangelsi um ókomin ár fyrir glæpi sem þeir frömdu ekki.
Ég er steinhissa á því að okkar háæruverðugu ráðherrar skulu ekki vera með stöðugan hiksta þessa dagana, miðað við allt sem þeir eru að éta ofan í sig af splunkunýjum fullyrðingum og kosningaloforðum, já, jafnvel stórum kosningabaráttumálum.
Nú virðist vera ásættanlegt að láta aðrar þjóðir beita okkur þvingunum og hryðjuverkalögum, nú er bara fínt að hneigja sig, þakka pent fyrir löðrunginn og rétta svo hinn vangann. Á meðan fá sökudólgarnir nægan tíma til að koma eignum og fjármagni undan svo þeir þurfi nú ekki að borga skuldir sínar, greyin, eins og sótsvartur almúginn.
Við skulum átta okkur á því sem fyrst að það verða, nú eins og alltaf, "breiðu bökin" sem koma til með að borga óráðsíu auðvaldsins. Aldraðir, öryrkjar, sjúklingar og svo auðvitað barnafjölskyldurnar.
Eins gott að átta sig á því sem allra fyrst og búa sig undir skuldaklafa komandi ára.
Icesave: Hægt að byggja allan Ísafjörð tíu sinnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.