Gleymum ekki hvað skiptir máli.

Ég hef oft hugsað, þegar ég horfi á fréttir að undanförnu, að það hafi sennilega orðið mér til happs að giftast Dana. Maðurinn minn hefur aldrei skilið fjármál íslenskra heimila og oft hrist höfuðið yfir neyslubrjálæðinu í okkur Íslendingum. Smá útskýring: Við eigum litla 4 herb. blokkaríbúð úti á landi sem við ákváðum að kaupa þegar leigan var orðin hærri en afb. af lánum fyrir svol. íbúð. Þegar gamli bíllinn okkar dó leituðum við lengi á bílasölum og ráðfærðum okkur við "vana menn" áður en við keyptum annan gamlan bíl, ódýran, sem eyddi litlu, tókum út orlofið okkar til að geta borgað næstum allt út í hönd. Gamla "túbusjónvarpið" okkar "dó" fyrir síðustu jól, nú erum við með gamla túbusjónvarpið hennar systur minnar í láni meðan við söfnum okkur fyrir öðru. Þvottavélin okkar er "pínu lasin" en vonandi dugar hún þar til við höfum efni á að kaupa aðra. Þurrkarinn "dó" líka á síðasta ári svo við settum upp snúrur í þvottahúsinu, margt annað sem þarf að safna fyrir áður en sá lúksus kemst í forgang! Auðvitað "getum" við keypt þessa hluti út á krít, en það gengur ekki hjá Dananum og er ég rosalega fegin núna að hafa hlustað á hann hvað þetta varðar.

Við erum sko alls ekki neinir englar hvað neyslu varðar. Ég hef verið að sjá það betur og betur undanfarna mánuði að það er ýmislegt sem við hefðum mátt taka betur á í neyslunni. Ég veit líka að þótt við skuldum allt of mikið í íbúðinni okkar og lánin og ALLT hafi hækkað mikið að undanförnu, nema launin, þá hefur það líklega orðið okkur til happs að við tókum engin myntkörfulán. Það er einfaldlega vegna þess að okkar ágæti þjónustufulltrúi hjá Kaupþingi (Gunni í bankanum) gerði okkur vel og vandlega grein fyrir áhættunni sem fylgdi þessum lánum. Ég get seint fullþakkað honum það!

Ef við hefðum ekki valið svona, þá værum við í verulega djúpum skít í dag.

Það sem ég vildi sagt hafa með þessari færslu: Við erum flestöll, hvað sem við höfum gert/valið síðustu ár, í (mismunandi) slæmum málum og erum sár, reið og mörg hver örvæntingarfull. En við megum alls ekki gleyma okkur í reiðinni við ráðamenn og aðra og gleyma að "taka til" í okkar neyslumálum líka. Munum hvað skiptir máli: Fjölskyldan, vinirnir, heilsan. Alls annars getur maður alveg verið án! 

Vonandi gera ráðamenn sér grein fyrir þessu líka. Fólk VERÐUR að hafa þak yfir höfuðið og mat ofan í sig og börnin sín, sem og aðgang að góðri heilbrigðis- og félagsþjónustu, ÓHÁÐ FJÁRHAG!

Gleymum ekki hvað skiptir máli!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alveg hárrétt. Ég held að ein allsherjar sjálfskoðun hjá Íslendingum sé af hinu góða núna. Fólk er vonandi búið að átta sig á því að veraldlega kapphlaupið hefur enga sigurvegara eða endastöð, þetta kapphlaup er jafnvitlaust og hundur að elta skottið á sér.

Ísak (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 22:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband