Hvað er til ráða?

Ég, eins og aðrir landsmenn, bíð enn eftir einhverjum alvöru aðgerðum af hálfu ríkisstjórnarinnar til hjálpar fjölskyldunum í landinu. Það er alveg greinilegt að nú er við stjórnvölinn fólk sem er einfaldlega skíthrætt við að taka ákvarðanir. Ýmsar ágætar tillögur hafa komið fram um aðgerðir til varnar heimilum og fjölskyldum í landinu en enn er allt í orði og ekkert á borði.

Eitt datt mér í hug um daginn þegar ég var að velta fyrir mér öllum þessum tillögum og umræðum um sanngirni/ósanngirni sem fólki verður tíðrætt um í því sambandi.

Hvaða þjóðfélagshópur er það sem er að fara verst út úr kreppunni, án þess að hafa "farið sér um of" í neyslu og áhættufjárfestingum síðustu ár? Og hvaða þjóðfélagshópur er það sem hrikalegar hækkanir á nauðsynjum eins og húsnæði, matvöru, fatnaði, hreinlætisvöru o.s.frv. kemur mest og verst við?

Leiðréttið mig ef þetta er ekki rétt hjá mér en eru það ekki barnmargar fjölskyldur sem verða verst úti og munu eiga erfiðast með að hafa sig í gegnum þessar þrengingar? Þetta er fólkið sem þarf fermetrafjöldann m.v. fjölda barnanna (ekki bara til að "hafa það gott" og "hafa fullt af plássi"). Þetta er fólkið sem þarf að eyða mest í matvöru, fatnað o.þ.h. og á erfiðara með að skera niður ýmis útgjöld en aðrir.

Tillaga Framsóknar um flata 20% niðurfellingu skulda er ágæt og sanngjörn að mörgu leiti, það skársta sem fram hefur komið hingað til allavega. Skuldir þeirra sem skulda mest munu þá lækka mest, þær hafa jú hækkað mest undanfarna mán./ár. Ég heyri hins vegar oft að "það sé fullt af fólki sem hefur einfaldlega farið algjörlega fram úr sér í neyslu og skuldsetningu, bara fyrir "lúxusinn" og eigum svo við hin að borga fyrir niðurfellingu á skuldum þeirra líka?"

OK. Hvað með að minnka niðurfellinguna um 10-15% eða sleppa henni alveg en hækka þess í stað barnabæturnar tímabundið um 100-200% ? Mundi það ekki koma til móts við akkúrat fólkið sem þyrfti mest á því að halda? Væri ÞAÐ ósanngjarnt?

 Ég er ekki lögfróð manneskja og hef svona tölur ekki á hreinu en mig langar til að vita hversu mikið væri hægt að hækka barnabætur fyrir þann pening sem talað er um í sambandi við niðurfellingu skulda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband